EN

24. apríl 2024

Eva Ollikainen lýkur samningstíma sínum sem aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi í lok starfsársins 2025/26

Eva Ollikainen, sem tók við stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2020, mun ekki framlengja samningi sínum þegar hann rennur út í lok starfsársins 2025/26.

Eva Ollikainen segir:

Ég hef notið hvers augnabliks sem ég hef átt með öllum frábæru hljóðfæraleikurunum í Sinfóníuhljómsveit Íslands í tónlistarhúsinu Hörpu. Ég er mjög stolt af þeim árangri sem við höfum náð saman, til dæmis stofnun hljómsveitarstjóra-akademíu árið 2020 þar sem við höfum gefið ungu íslensku tónlistarfólki tækifæri til þess að taka sín fyrstu skef á stjórnandapallinum. Ég hlakka til margra tónleika með hljómsveitinni, tónleikaferða og hljóðritana, bæði á þeim tíma sem ég á enn eftir í stöðu aðalhljómsveitarstjóra og í framtíðinni.“

Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands segir:

Við erum mjög þakklát fyrir það dásamlega samstarf sem við höfum átt við Evu og hlökkum til næstu tveggja starfsára með henni sem aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda, og sérstaklega hlökkum við til þess að halda upp á 75 ára stórafmæli sveitarinnar með henni á næsta ári. Eva vann frábært starf í samvinnu við teymið okkar á tímum mikilla áskorana í heimsfaraldrinum þar sem hún sló aldrei af háum listrænum kröfum þrátt fyrir ýmsar hindranir. Meðal margra listrænna hápunkta eru heimsfrumflutningar og hljóðritanir á verkum Önnu Þorvaldsdóttur staðartónskálds, sem var eitthvað alveg einstakt.

Eva Ollikainen stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn árið 2005 á framhaldsskólatónleikum hljómsveitarinnar þegar hún stökk inn með nær engum fyrirvara, en hún stjórnaði einnig nokkrum áskriftartónleikum á árunum 2007–2010, m.a. Brahms og Ravel á minnisstæðum tónleikum sem hlutu einróma lof. Eva stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn í Hörpu í febrúar 2019 með miklum glæsibrag og skömmu síðar tók hún boði hljómsveitarinnar um að gerast aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi hennar.

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur flutt afar fjölbreytta efnisskrá undir stjórn Evu Ollikainen sem aðalhljómsveitarstjóra, allt frá stóru þýsku tónskáldunum til franskra og skandinavískra meistaraverka 20. og 21. aldarinnar. Auk þessa hefur mikil áhersla verið lögð á flutning verka íslenskra tónskálda, þar sem hápunkturinn var útgáfa Sono Luminus á hljómdisknum ARCHORA / AIŌN með verkum Önnu Þorvaldsdóttur árið 2023. Að áliti New York Times var diskurinn í hópi bestu klassísku diska ársins 2023 og Boston Globe valdi hann sem einn af tíu bestu klassísku diskum ársins.