EN

22. maí 2018

Klassíkin okkar - kjóstu þitt verk

Uppáhalds íslenskt

Hver er uppáhalds íslenska tónsmíðin þín? Er það Brennið þið, vitar eftir Pál Ísólfsson eða Smávinir fagrir eftir Jón Nordal? Eða kannski Vökuró eftir Jórunni Viðar? 

Tónleikarnir „Klassíkin okkar“ sem Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV hafa staðið fyrir undanfarin tvö ár hafa vakið fádæma hrifningu meðal landsmanna. Í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að Ísland varð fullveldi verður leikurinn nú endurtekinn með áherslu á íslenska tónlist 20. og 21. aldar. 

Hljómsveitarstjóri á tónleikunum er Daníel Bjarnason en einvalalið íslenskra einsöngvara, einleikara og kóra koma fram með hljómsveitinni. Kynnar eru Guðni Tómasson og Halla Oddný Magnúsdóttir.

Kjóstu þína uppáhalds verk

Nú er hafin netkosning á slóðinni ruv.is/klassikin þar sem allir landsmenn geta valið eftirlætis íslensku tónverkin sín. Þau verk sem hljóta flest atkvæði fá sinn sess í efnisskrá tónleikanna þann 31. ágúst og verða tónleikarnir í beinni útsendingu á RÚV.

Athugaðu að kosningunni lýkur 17. júní en ef þitt uppáhald er ekki að finna á listanum getur þú lagt það til í sérstökum reit fyrir neðan hann.

Ekki viss? Ekkert mál!

Á meðan á netkosningunni stendur verður Rás 1 til taks fyrir þá sem eru að gera upp hug sinn. Tónlistin á listanum verður kynnt í fimm útvarpsþáttum kl. 14:03 á föstudögum sem verða í umsjón Guðna Tómassonar en þeir eru endurfluttir á laugardögum kl. 22:10. Þættirnir hefja göngu sína laugardaginn 18. maí. Hlustendur kveða svo upp sinn dóm á www.ruv.is/klassikin.

Hlusta á þættina á vef RÚV