Christiane Karg
Einsöngvari
Bæverska sópransöngkonan Christiane Karg er meðal þeirra allra fremstu á heimsvísu um þessar mundir og vekur hvarvetna aðdáun fyrir silkimjúka og tæra sópranrödd sína. Hún er fastagestur við Covent Garden og La Scala-óperuhúsin og debúteraði við Salzburgarhátíðina árið 2006 við frábærar undirtektir. Hún hefur tvívegis unnið til hinna virtu Echo Klassik-verðlauna, m.a. fyrir disk með konsertaríum þar sem hún syngur undir stjórn Jonathans Cohen, sem einmitt stjórnar Aðventutónleikum Sinfóníunnar 2017.
Christiane Karg hefur haldið einsöngstónleika í Musikverein í Vínarborg, Concertgebouw í Amsterdam, Wigmore Hall í Lundúnum og á Edinborgarhátíðinni. Nýverið kom hún fram á páskahátíðinni í Salzburg þar sem hún söng Þýska sálumessu eftir Brahms með Dresden Staatskapelle undir stjórn Christians Thielemann; hún söng einnig Níundu sinfóníu Beethovens með Mariss Jansons og Bæversku útvarpshljómsveitinni í Tókýó og fjórðu sinfóníu Mahlers með Fílharmóníuhljómsveit Rotterdam undir stjórn Yannick Nézet-Séguin. Segja má að tónlist Mahlers sé sérgrein hennar og hefur hún m.a. sungið einsöngshlutverkið í Upprisusinfóníunni með Concertgebouw-hljómsveitinni og Orchestre de Paris. Hún mun jafnframt syngja verkið með Lundúnasinfóníunni í febrúar 2018 undir stjórn Seymons Bychkov.