EN

Mahler nr. 3

Listahátíð í Reykjavík

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
6. jún. 2024 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 4.000 - 10.200 kr.
Kaupa miða
  • Efnisskrá

    Gustav Mahler Sinfónía nr. 3

  • Hljómsveitarstjóri

    Eva Ollikainen

  • Einsöngvari

    Christina Bock

  • Kórar

    Vox feminae, Stefan Sand Groves kórstjóri
    Kammerkórinn Aurora, Sigríður Soffía Hafliðadóttir kórstjóri
    Stúlknakór Reykjavíkur, Margrét Pálmadóttir kórstjóri

Þriðja sinfónía Mahlers er heill heimur út af fyrir sig, eins og tónskáldið taldi reyndar að allar sinfóníur ættu að vera. Hún er í senn óður til náttúrunnar og djúphugul, heimspekileg könnun á mannlegu hlutskipti. Sjálfur sagði Mahler einmitt að rödd náttúrunnar hljómaði í verkinu, en hann samdi það við bakka Attersee í Austurríki þar sem útsýni yfir vatnið og fjöllin í kring veitti honum stöðugan innblástur og svipmyndir af veðurfari, gróðri og dýralífi ólíkra árstíða fléttuðust inn í tónsmíðarnar. Mahler hafði hugsað sér að halda lengd verksins í skefjum en þegar andinn var kominn yfir hann varð ekki aftur snúið: „Það er sem straumur sköpunarinnar hafi hrifið mig með sér,“ skrifaði tónskáldið í bréfi. „Ég á mér engrar undankomu auðið!“ Sinfónían varð sú lengsta af öllum 10 sinfóníum hans en hún er í sex þáttum og tekur um eina og hálfa klukkustund í flutningi.

Þrátt fyrir lengdina er verkið einkar aðgengilegt og ekki laust við að hlustandinn láti berast með sama straumi og Mahler forðum. Það tilfinningalega ferðalag sem sinfónían leiðir hlustandann í er líka varðað lýsandi nöfnum sem tónskáldið gaf þáttunum sex, þótt síðar hafi hann kosið að halda þeim utan við prentaðar útgáfur verksins. Þannig hefst hinn stórbrotni fyrsti þáttur á því að sumarið heldur innreið sína en þeir næstu eru helgaðir lifandi verum: blómunum á enginu, dýrum skógarins og sjálfum manninum. Síðustu tveir þættir sinfóníunnar lúta að upphafnari fyrirbærum: englunum og ástinni, en lokaþátturinn er hægur og kærleiksríkur þakklætissöngur til alls heimsins.

Þetta stórvirki Mahlers krefst óvenjustórrar sinfóníuhljómsveitar, þriggja kóra og einsöngvara en með einsöngshlutverkið fer hin þýska Christina Bock.

Tónleikarnir eru samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og það er Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri sveitarinnar, sem stýrir flutningnum.

Flutningurinn tekur um 100 mínútur og eru tónleikarnir án hlés.