EN

Ambroise Thomas: Mignon, forleikur

Forleikurinn að Mignon, frægustu óperu franska tónskáldsins Ambroise Thomas (1811-1896) hefst með hægum inngangi þar sem klarinett, flauta og harpa skapa eftirvæntingafullt andrúmsloft. Laglínan sem þá tekur við í einleikshorni er úr einni af frægustu aríum óperunnar, Þekkir þú landið þar sem appelsínutrén blómstra? Hin unga Mignon syngur þar saknaðaróð til Ítalíu, landsins sem hún var numin brott frá, en hún hefur verið í haldi sígauna frá því í bernsku.

Óperan byggir á hluta úr skáldsögu eftir Þjóðverjann Johann Wolfgang von Goethe, Lærlingsár Wilhelms Meister, sem kom út 1796. Í óperunni segir frá því þegar ungur stúdent, Wilhelm að nafni, og eldri maður, Lohtario, sem um langa hríð hefur leitað brottnuminnar dóttur sinnar, rekast á hóp sígauna og furða sig á framkomu þeirra við unga stúlku í hópnum. Þeir félagar frelsa stúlkuna úr klóm sígaunanna og varla þarf að fjölyrða um hvernig fer – Lothario reynist vera faðir Mignonar og þau Wilhelm fella hugi saman. Vitanlega voru sögulokin farsæl, annað kom ekki til greina í Opéra-Comique í París, þar sem óperan var frumflutt 1866. Fimm árum síðar var hún flutt í New Orelans og sama ár var Mignon sungin á ensku í New York.

Melódískt yfirbragð óperunnar féll áheyrendum vel í geð, þótt ýmsum gagnrýnendum hafi þótt tónlistin harla léttvæg og söguþráðurinn klénn. Talsverður sveigjanleiki virðist hafa einkennt flutning verksins, ef til boða stóðu færir söngvarar bætti tónskáldið við köflum þar sem hæfileikar þeirra fengu notið sín. Annarri þekktri aríu úr verkinu bregður fyrir í síðari hluta forleiksins, það er fjörug pólónesa, Ég er Títanía, sem Philine, keppinautur Mignonar um ástir Wilhelms, syngur í óperunni.