Benjamin Britten: Russian Funeral
Benjamin Britten (1913–1976) fæddist í sjávarþorpinu Lowestoft í Suffolk-héraði á Austur-Englandi. Tónlistarhæfileikar hans komu snemma í ljós og naut hann fyrstu leiðsagnar í píanóleik og nótnalestri hjá móður sinni. Sjö ára gamall hóf hann reglulegt píanónám og þremur árum síðar bættist víólan við tónlistarnámið. Sautján ára gamall vann Britten keppni um styrk til náms við Konunglega tónlistarháskólann í London (Royal College of Music). Þar dvaldi hann frá 1930–33 og lærði tónsmíðar hjá John Ireland og píanóleik hjá Arthur Benjamin. Á þessum árum vann hann til nokkurra verðlauna fyrir tónsmíðar sínar og fyrstu verk hans til að vekja verulega athygli urðu einnig til á skólaárunum í Royal College — Sinfonietta op. 1 og sálmatilbrigðin A boy was born. En Britten notaði einnig tímann í London til að sækja tónleika í því skyni að kynnast tónlist Stravinskíjs og Shostakovitsj en sér í lagi Mahlers. Að loknu námi í London stundaði hann um skeið framhaldsnám hjá Alban Berg og Schönberg í Vínarborg.
Britten er í hópi helstu tónskálda 20. aldarinnar. Meðal þekktustu og mest fluttu verka hans eru The Young Person's Guide to the Orchestra, War Requiem og óperan Peter Grimes. Yfirburðir Brittens meðal óperutónskálda síðari hluti aldarinnar eru miklir og hafa í það minnsta fimm óperur hans öðlast fastan sess á fastri verkaskrá óperuhúsa. Eru þær næst á eftir verkum Richards Strauss mest fluttu óperur tónskálda liðinnar aldar. Meðal annarra verka Brittens eru hljómsveitarverk, kórverk, einsöngsverk, einleiksverk, strengjakvartettar og önnur kammertónlist.
Hin eiginlega starfsævi Benjamins Britten árið hófst 1935 og á næstu tveimur árum skrifaði hann hátt í 40 verk fyrir leikhús, kvikmyndir og útvarp. Britten var á þessum árum vinstrisinnaður líkt og margir aðrir menntamenn á þessum erfiðu tímum heimskreppu og uppgangi fasista í Evrópu og lét ekki sitt eftir liggja þegar hann var beðinn um að semja stutt verk fyrir tónleika á vegum London Labour Choral Union (Kór verkalýðssamtaka Lundúnaborgar). Samdi Britten Russian Funeral fyrir málmblásara og slagverk á rúmri viku og var verkið frumflutt í Westminster-leikhúsinu í London 8. mars 1936. Til að undirstrika rússneskt yfirbragð verksins, notar tónskáldið ósvikinn rússneskan jarðarfararsöng sem öreigalýðurinn syngur yfir föllnum hermönnum byltingarinnar. Stefið heyrist í upphafi og enda verksins og rammar inn tónlist sem táknar stríð. Þess má geta að Shostakovitsj notaði sama jarðarfararstef í 11. sinfóníu sinni 20 árum síðar. Russian Funeral lá síðan ríflega 40 ár í gleymsku eftir frumflutninginn og heyrðist ekki aftur fyrr en 1983.